Um Tækifærið

Rekstraraðili Tækifærisins er Starfstækifærið ehf. 
Félagið verður rekið án hagnaðarsjónarmiða.

Björk Vilhelmsdóttir er stofnandi og eigandi þess.
Sveinn Rúnar Hauksson er bakhjarl.

 

Hvar?

Tækifærið er starfsþjálfun sem felst í því að fara út á land þar sem ungt fólk og starfsmenn búa saman og gera upp eldra húsnæði sem þarfnast viðhalds.

Staðsetning liggur ekki fyrir. Unnið er að því að finna húsnæði þar sem 20 – 30 einstaklingar geta búið saman (gamlar heimavistir hljóma mjög vel) og fyrir hendi er húsnæði sem þarfnast viðhalds.

Lögð er áhersla á samfélag án vímuefna og því alveg í lagi að húsnæðið sé úr alfaraleið.

​Hvenær?

Boðið verður upp á tvær annir á ári, 13 vikur í senn.

Fyrsta lota verður vonandi haustið 2021 og færi fram:

 • 6. eða 13. sept. – 3. eða 10. des. 2021

Vorið 2022 yrði boðið upp á aðra lotu:

 • 10. eða 17. jan. – 22. eða 29. apríl 2022

 

Fyrir hverja?

Markmið Tækifærisins er að veita ungu fólki sem er langt frá vinnumarkaði og með litla formlega menntun tækifæri til að breyta lífi sínu. Því miður er þörfin mikil og því gott að hefja nýjar og breyttar áherslur í starfsþjálfun. 

 • Atvinnuleysi í janúar 2021 var 12.8%

 • 6.405 voru á aldrinum 16-29 ára 

  • 3.352 eða 52% eru bara með grunnskólamenntun 

  • 1.107 eða 17% hafa verið atvinnulaus lengur en 12 mánuði

  • 2.872 einstaklingar á aldrinum 18-29 ára eru með erlent ríkisfang

 

 • Fyrir COVID eða í feb. 2020 var atvinnuleysi 5%

 • Þá voru 3.000 einstaklingar á aldrinum 16-29 ára

  • 1.709 eða 57% voru bara með grunnskólamenntun

  • 371 eða 12% höfðu verið atvinnulaus lengur en 12 mánuði

  • 1.119 á aldrinum 18-29 ára voru með erlent ríkisfang

 • Á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er hverju sinni verst setti hópurinn, sem er með það litla vinnusögu að viðkomandi er ekki á skrá Vinnumálastofnun. 

 • Að jafnaði eru á hverjum mánuði um 600 - 700 einstaklingar undir 30 ára aldri með fjárhagsaðstoð sveitarfélags sér til framfærslu. 

 

Tækifærið er hugsað út frá aðstæðum fólks. Tækifærið stefnir að því að sinna blönduðum hópi ungs fólks óháð uppruna þess.

Hver borgar?

Starfstækifærið vonast eftir samningum við Vinnumálastofnun og félagsþjónustu sveitarfélaga um kaup á 13 vikna starfsþjálfun hjá Tækifærinu. Hvorugt er í hendi, en unnið að slíku.

Þátttakendur munu sjálfir greiða fyrir fæði. Gert er ráð fyrir að þeir hafi tekjur af atvinnuleysisbótum eða fjárhagsaðstoð síns sveitarfélags á meðan á þjálfuninni stendur.

Um Björk

Björk sem er 57 ára hefur ákveðið að nýta síðasta áratug sinn á vinnumarkaði í að fjárfesta í þeim sem eiga á hættu langtíma fátækt með tilheyrandi jaðarsetningu og heilsutjóni.

 

Sjálf var Björk svo heppin að eiga mömmu sem stóð með henni þegar hún sjálf missti sjálfstraustið og námsgetuna. Hún fékk líka kennara sem hafði trú á henni og síðar þurfti hún að axla ábyrgð á lífi sínu og heilsu.

 

Björk hefur fengið mörg tækifæri í lífinu. Öll tækifæri eru ómetanleg, ekki síst þau sem ekki virðast vera manni að skapi. Slík tækifæri kallar Björk  "spark í rassinn" því það eru þau sem gefa nýja sýn og koma manni áfram.

 

Björk segir: "Þeir sem ekki eiga mömmu eins og ég átti - þurfa svona félagsráðgjafa eins og mig - sem stundum er kölluð mamma stáltá." 

Björk hefur verið félagsráðgjafi í rúma 3 áratugi, unnið hjá ríki, borg og frjálsum félagasamtökum. Síðastliðin 3 ár hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði. 

Um 13 ára skeið var Björk í borgarstjórn Reykjavíkur. 

Björk er með MA próf í félagsráðgjöf og margvíslega endurmenntun. Hefur unnið til sjós og lands og er sérlega verklagin.

 

Sveinn Rúnar, bakhjarl Tækifærisins, er læknir og baráttumaður fyrir bættri þjónustu við þá sem hafa geðrænar áskoranir. 

Aðildi

Tækifærið var valið eitt af Aðildum Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð árið 2021.

FES_Adildi_Stimpill_A_islenska_2021_01.p
sidney-pearce-qj9Ln27hG1Y-unsplash.jpg
Mamma3.jpg