Tækifærið lokar tímabundið - opnum vonandi í janúar
Við þurfum því miður að hætta við námskeið haustsins vegna skorts á þátttakendum. Við buðum VInnumálastofnun, VIRK og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu heildstætt 3ja mánaða námskeið á 288.000 kr. eða 96.000 á mánuði. Nú eru 802 erlendir ríkisborgar á aldrinum 18-29 atvinnulausir; 375 karlmenn og 427 konur. Þar af hafa 222 verið atvinnulausir í meira en eitt ár og 362 í 6-12 mánuði. Í hverjum mánuði eru yfir 200 einstaklingar 18-29 ára með fjárhagsaðstoð sér til framfærslu í Reykjavík og er talsverður meirihluti með erlent ríkisfang. Þá eru 452 ungir einstaklingar, 18-29 ára, með endurhæfingarlífeyri frá TR en ekki er gefin upp skipting eftir uppruna á mælaborði TR.
Tækifærið býður upp á námskeið um íslenskt samfélag, íslenskan vinnumarkað og unnið er með persónulegar áskoranir þátttakenda bæði með einstaklingsvinnu og í hóp. Starfsþjálfun fer fram á vinnustöðum í 4 vikur og þátttakendur fá aðstoð við atvinnuleit og atvinnutengingu. Við höfum í fyrri námskeiðum náð 95% árangri.
Ef ekkert er að gert festist þessi hópur í NEET aðstæðum, tapar vinnu- og námsgetu um leið og andleg og líkamleg heilsa hrakar og einangrun eykst.
Vill íslenska velferðarkerfið frekar halda fólki á bótum en að greiða minna en sem nemur einum mánaðarbótum í að gefa þessu unga fólki tækifæri?
Tækifærið er ný nálgun í starfsþjálfun, ætlað ungu fólki af erlendum uppruna sem hefur lengi verið atvinnulaust og er með litla formlega menntun. Tækifærið starfar á grundvelli valdeflingar þar sem þátttakendur þróa með sér seiglu og taka ábyrgð á eigin lífi. Þannig skapast möguleiki til endurkomu til virkrar þátttöku í samfélaginu.
Eldri fréttir
Tækifærið - tveir þróunarhópar árið 2022
Tveir hópar Tækifærisins hafa lokið þátttöku. Eftirfylgd er enn í gangi, því við lofum lífstíðar ábyrgð ;-). Í kynningarefni má sjá skýrslur óháðs félagsfræðings sem mat upplifun þátttakenda. Í báðum tilfellum var ánægja í heild mjög góð, 4.8 í vor og 4.4 í haust á skalanum 0-5.
11 af 12 komnir í vinnu
Nú eru allir úr vorhópi eða sjö ungir karlmenn og fjórir af fimm úr hausthópi í fullri vinnu. Þátttakendur voru helst til of fáir sem helgast af erfiðleikum með að ná til þeirra sem hafa verið lengi utan vinnu og skóla.

